Öryggis- og persónuverndarmiðstöð

Nálgun okkar gagnvart hættulegu og villandi efni

Teymi Spotify vinna myrkranna á milli til að tryggja örugga og ánægjulega upplifun fyrir höfunda, hlustendur og auglýsendur. Þótt stærsti hluti efnisins í kerfinu okkar fylgi reglum og stærsta hluta hlustunartímans sé eytt í leyfisvarið efni reyna slæmir aðilar stundum að spilla upplifuninni með því að deila villandi upplýsingum og/eða upplýsingum sem hagræða sannleikanum. Þegar við greinum efni sem brýtur gegn kerfisreglum okkar grípum við tafarlaust til viðeigandi aðgerða. Lestu áfram til að fá frekari upplýsingar um aðferðirnar sem við notum til að vernda Spotify.

Villandi efni getur tekið á sig ýmsar myndir, allt frá saklausum sögusögnum til mjög alvarlegra og markvissra herferða sem hannaðar eru til að vekja ótta og valda skaða í samfélaginu. Þessi þróun breytist ört í hinum síbreytilega heimi og við nýtum okkur sérþekkingu innlendra teyma okkar sem og utanaðkomandi samstarfsaðila til að skilja þessar gerðir af fölsku efni betur.

Í mörgum tilvikum gæti þessum skaðlegu frásögnum verið deilt af einhverjum sem veit ekki endilega að þær séu rangar eða villandi. Þótt sum ósannindi séu ekki hættuleg („hundurinn minn er sá klárasti í heimi“) eru önnur ósannindi svo sannarlega skaðleg („krabbamein er bara gabb“). Hugtakið „rangar upplýsingar“ er oft notað til að lýsa mörgum gerðum af fölskum upplýsingum, þar á meðal upplýsingafölsun, sem er efni sem er vísvitandi deilt af slæmum aðilum til að vekja efasemdir um raunverulegt efni.

Hættulegt og blekkjandi efni er flókið og blæbrigðaríkt og krefst mikillar ígrundunar. Við teljum að með því að bregðast við þessum gerðum brota í mörgum regluflokkum getum við verið skilvirkari og nákvæmari í ákvörðunum okkar.

Til dæmis tökum við skýrt fram í reglum okkar um hættulegt efni að við leyfum ekki efni sem auglýsir falskar eða villandi heilbrigðisupplýsingar sem kunna að valda skaða í raunheiminum eða ógna lýðheilsu. Annað dæmi er tekið úr reglum okkar um villandi efni þar sem fram kemur að við grípum til aðgerða gegn efni sem reynir að hagræða eða trufla kosningatengd ferli, þar á meðal sem ógnar eða kemur í veg fyrir að kjósendur geti kosið.

Þegar við metum þessar gerðir misnotkunar á netinu tökum við tillit til margra þátta, þar á meðal:

  • innihalds efnisins (t.d. er höfundurinn að þykjast vera einhver annar?)
  • samhengið (t.d. er þetta fréttaflutningur um hættulega frásögn sem er að breiðast út eða er þetta stuðningur við frásögnina sjálfa?)
  • ástæðunnar (t.d. er höfundurinn að reyna að blekkja notanda til að kjósa eftir að kosningafrestur hefur runnið út?)
  • hættuna á skaða (t.d. eru miklar líkur á að útbreiðsla frásagnarinnar muni valda yfirvofandi líkamlegum skaða?)

Hættulegar blekkingar eru oft mjög staðbundar og eru miðaðar að tilteknum mörkuðum, tungumálum og þeim hópum sem eru í aukinni hættu á að falla fyrir þeim. Til að bregðast við þessu nýtum við sérþekkingu á staðbundnum mörkuðum til að hjálpa til við að tryggja að séum meðvituð um nýja leitni sem kann að valda miklum skaða og styðja við þessa mennsku þekkingu með vélnámsflokkum. Þessi nálgun er kölluð „manneskjan með í ráðum“.

Við gerum okkur grein fyrir að þessi gerð efnis getur verið meira áberandi á tímum óvissu og óstöðugleika þar sem viðurkenndar upplýsingar kunna að vera af skornum skammti. Af þeim sökum getum við einnig gripið til nokkurra aðgerða gegn efni til að takmarka útbreiðslu efnis sem kann að vera skaðlegt í kringum viðkvæma atburði þar sem aukin hætta er á að skaðleg frásögn leiði til ofbeldis í raunheiminum.

Til dæmis kunnum við að takmarka sýnileika efnisins í ráðleggingum, merkja efnið með efnisráðgjafarmerki eða velja að fjarlægja það úr kerfinu. Við kunnum einnig að birta efni frá viðurkenndum heimildum til að tryggja að notendur okkar hafi aðgang að nákvæmum og traustum upplýsingum, svo sem tengla á opinbert kosningatengt efni sem kjörstjórnir halda úti.

Við uppfærum reglur okkar og leiðbeiningar til yfirlesara byggt á ábendingum frá teymum okkar hjá Spotify, utanaðkomandi hagsmunaaðilum og samstarfsaðilum okkar í Spotify Safety Advisory Council.

Þú getur lesið meira um öryggisaðgerðir okkar hér og séð leiðbeiningar okkar fyrir höfunda í fyrri kosningum hér.